16.12.2008 | 22:34
Rugl hinnar Íslensku Þjóðkirkju !!!!!
Íslenska Þjóðkirkjan er nokkuð langt frá því takmarki að standa sig í stykkinu gagnvart meðlimum sínum hvað varðar heilbrigða kennslu og uppfræðslu á "ORÐINU", þá á ég við þann boðskap sem henni hefur verið treyst fyrir að koma til þjóðarinnar.
Á vef Þjóðkirkjunnar, Trú.is, les ég eftirfarandi svokallaða "jákvæðari" túlkun á Boðorðunum 10 sem þjóðkirkjuprestur einn Ágúst Einarsson að nafni hefur látið frá sér fara. Ekki er áhuginn meiri hjá honum blessuðum á "Lögum Guðs" en svo að hann kemur með ramm-kaþólska uppsetningu á Boðorðunum, og breytir síðan aftur kaþólskbreyttum Boðorðunum eftir sínu höfði.
Er skrítið að leitandi þjóðkirkjufólk verði ringlað, Biblían segir eitt, þjóðkirkjuprestarnir segja annað ?
Boðorðin 10 og Boðorðin 10 í jákvæðri túlkun
1. Ég er Drottinn, Guð þinn, þú skal ekki aðra guði hafa
1. Gerðu upp við hjáguðina og lifðu fyrir og í kærleika Guðs.
2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
2. Notaðu fúslega nafn Guðs og biddu um styrk hans en til góðra verka.
3. Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
3. Unntu þér reglulegrar hvíldar og tíma til andlegrar íhugunar.
4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
4. Auðsýndu foreldrum þínum virðingu og kærleika. Láttu börnin þín njóta þess sama.
5. Þú skalt ekki mann deyða.
5. Verndaðu lífið og hlúðu að því í öllum myndum.
6. Þú skalt ekki drýgja hór.
6. Vertu maka þínum trú/r.
7. Þú skalt ekki stela.
7. Berðu virðingu fyrir eigum og réttindum annarra.
8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
8. Vertu áreiðanleg/ur í hugsunum, orðum og verkum. Efndu loforð þín og baktalaðu engan.
9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
9. Berstu gegn öfund og löngun til að eignast alla hluti.
10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.
10. Samfagnaðu meðbróður þínum þegar honum vegnar vel í lífinu.
Hversu vel kemst hann frá því að gefa "Jákvæðari túlkun" á Boðorðin 10 ?
Hvernig er hægt að kalla það jákvætt sem afskræmir orð Guðs ?
Hvers vegna hefur presturinn ekki Biblíuna til hliðsjónar þegar hann skrifar sína jákvæðu túlkun ?
Af hverju sniðgengur presturinn alveg Boðorð Biblíunnar no 2 sem bannar Skurðgoðadýrkun ?
Er ekki hæpið að koma með tvær mismunandi "Jákvæðar túlkanir" á Boðorði Biblíunnar no 10 sem fjallar um girndina, en misvitrir menn hafa skipt því Boðorði í tvennt, þ,e. í no. 9 og 10 til þess að Boðorðin 10 haldi nú tölu sinni ?
Ætli presturinn hafi einhvern tímann lesið sjálfur og í einrúmi Boðorðin 10 eins og þau koma fyrir á blöðum Ritningarinnar í 2 Mósebók og í 5 Mósebók ?
Mér finnst ég knúinn til þess að benda þessum presti á örfá vers úr bókum Biblíunnar sem sýna mikilvægi þess, fyrir hinn Kristna einstakling, að hafa í hávegum þessar reglur Guðs.
Vér höfum syndgað, vér höfum farið villir vegar, vér höfum breytt illa, verið mótþróafullir og vikið frá boðorðum þínum og fyrirmælum. Daniel 9:5
Jesús sagði við hann: Hví spyr þú mig um hið góða? Einn er sá hinn góði. Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin. Matt 19:17
Enn sagði Jesús við þá: Listavel gerið þið að engu boðorð Guðs svo þið getið rækt erfikenning ykkar. Mark 7:9
Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Jóh 14:15
Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig. Jóh 14:21
Sá sem segir: Ég þekki hann, og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum. 1.Jóh 2:4
,,,"ER LYGARI",,, það var ekkert verið að fara í kringum hlutina í þessu síðasta versi!
Fer mikilvægi Boðorðanna eitthvað á milli mála ?
Væri ekki betra HR. PRESTUR og KÆRA ÞJÓÐKIRKJA að fara rétt með orð Heilagrar Ritningar ?
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Bloggar, Bækur, Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:35 | Facebook
Athugasemdir
Vá hvað þú ert tuddalegur... mér finnst allt í lagi að menn reyni að umorða gamlar þýðingar á ennþá eldri texta. Annað hvort er guðs orð lifandi eða dautt. Mér finnst þú halda að það sé dautt. Það finnst mér leiðinlegt því ég trúi því gagnstæða.
Gísli Ingvarsson, 16.12.2008 kl. 22:42
Sæll og blessaður.
Það tók svolítinn tíma fyrir mig að finna þessa grein sem þú ert að skrifa um en með því að skrifa boðorðin í leitardálkinn þá fann ég þessa ómynd.
Slóðin er: http://tru.is/pistlar/2008/05/bodordin-tiu-i-jakvaedri-tulkun
Sammála þér að það á alls ekki að breyta orðalagi því þá getur alltaf innihaldið misst marks og það gerir það svo sannarlega í þessu tilviki.
Vertu Guði falinn
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.12.2008 kl. 22:47
það voru gleði fregnir í fréttunum í kvöld þess efnis að kirkjusókn á Íslandi væri að aukast aftur, sérstaklega á síðustu mánuðum, barnastarf væri vel sótt, og svona mætti endalaust telja.
Hvað varðar þennan prest, mér þykir hann gera einna helst lítið úr þeim sem lesa orðið, því aldrei hafa mér þótt boðorðin neitt sérstaklega flókin, hvað þá að ég þyrfti að fá þeim breytt svo að ég skildi þau í minni nútímalegri hugsun. Voðalega telur hann að fólk sé illa gefið að þau skilji ekki hvað sé átt við, og hvað Jesú var annt um að fólk hefðu þessu boð á hjarta sínu. Engu orði (meiningu þess) má breyta samkvæmt opinberunarbók ritningarinnar þeir sem gera slíkt munu víst fá óheppilegan dóm svo ég noti nú nútímatungu sem talar undir rós.
bk.
Vona að viðeigandi prestur svari fyrir sig.
Linda.
Linda, 16.12.2008 kl. 23:05
Þetta þykir mér athyglivert.
Sérstaklega setninginn ,,gerðu upp við hjáguðina,, Hvað á að gera upp?
Sérstaklega þykir mér þó athyglivert boðorð nr. 2 hvernig því hefur verið breytt, þetta er algjör andstaða, það er svo til verið að hvetja til þess að fólk setji nafn Drottins við alla hluti.
Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, verður allt í einu, Notaðu fúslega nafn Guðs og biddu um styrk hans - en til góðra verka, þetta er algjör andstaða, en sá sem bjó þetta til virðist hafa áttað sig á því þar sem hann segir í lokinn - til góðra verka.
Þjóðkirkjuprestar okkar eru margir og flestir góðir, en því miður eru þeir nokkrir sem að hafa ekki lifandi trú og virðast jafnvel blanda öllu saman og eiga það jafnvel til með að hvetja fólk til að hafa fleiri Guði en Jesús Drottinn, bara svona til öryggis, að það geti nú ekki sakað.
Og já þá veltur maður því fyrir sér hvort að þessi ágætu menn hafi ekki lesið orðið. Og þar sem að þeir ættu nú að hafa gert það í skóla, þá greinilega hafa þeir litla trú á því ef að þeir hvetja fólk til að hafa aðra Guði svona til öryggis og þá ættu þeir ekki að gegna þessu embætti sínu.
Við þurfum að biðja fyrir prestunum okkar að Guð leiði þá í sannleikann og að þeir opni hjörtu sín fyrir sannleikanum. Ég hef reyndar verið að biðja fyrir því að þjóð okkar mætti lifa samkvæmt boðorðunum því að ég tel að það sé viss blessun sem að fylgjir því.
Góð grein og athygliverð, Guð blessi þig
Unnur Arna Sigurðardóttir, 17.12.2008 kl. 00:04
Það má ekki gleyma því sem stendur að mig minnir í Kórintubréfinu. Að það skuli ekki predika fagnaðarerindið með lærðu orðskrúði. Þjóðkirkju prestar eru háskólagengnir í vitleysu þar sem þeim er kennt um öll trúarbrögðin.
Það má líka til gamans geta að á sama tíma og þjóðkirkjan fór að leyfa hjónaband samkynhneigðra þá tók hún út marga kafla sem töluðu gegn samkynhneigð án þess að svo mikið taka fram að þar hafi verið gerðar breytingar en á hverri einustu síðu er tekið fram þar sem áður stóð bræður en nú stendur systkini.
Það er heldur enginn grundvöllur fyrir því í biblíu né kristinni trú að skýra ómálga og nýfædd börn. Né fyrir fermingu. Ferming er að mínu mati beint brot við 2. boðroð þar sem nafn guðs er lagt við jafn hégómlega athöfn og að gefa barni peninga og gjafir fyrir hvað ?
Jafnframt stendur í orði guðs að við skulum gefa keisaranum það sem keisarans er og guði það sem guðs er. Það stendur ekki að við eigum að gefa keisaranum peninga svo hann geti látið guð hafa þá.
Þjóðkirkjan er ónýtt batterý með öllu og mun ég beyta mér fyrir því á komandi árum að aðskilja ríkið frá kirkjuni.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 01:30
Það er áhugavert hvað Hósea segir um presta og þekkingu á lögmáli Guðs:
Þessi meðferð þessa prests þarna á lögmáli Guðs finnst mér sýna afskaplega litla virðingu fyrir þeim eða þekkingu á þeim. Þó að vísu hef ég ekkert á móti því að setja þau í ákveðið ljós því að það getur gefið manni meiri þekkingu á því en auðvitað má ekki láta eins og þú getur sett þau betur fram en Guð sjálfur.
Persónulega fannst mér gott að setja fram "þú skalt ekki myrða" þannig að það þýddi að við ættum að vernda lífið og hlúa að því; gaman að vita hvort viðkomandi prestur er á móti fóstureyðingum.
Tek undir með Arnari, þjóðkirkjan er ónýt stofnun og full ástæða að allir kristnir beiti sér fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.
Mofi, 17.12.2008 kl. 14:25
Sæll Gísli Ingvarson
Mér finnst bara hið besta mál að ég sýni smá tuddaskap í þessu máli varðandi Boðorðin, ef sá tuddaskapur verður til þess að opna augu fólks (og presta) fyrir réttum Boðorðum Biblíunnar.
Ég held reyndar að þú gerir þér ekki grein fyrir því að í þessu tilfelli er viðkomandi prestur að leika sér að því að breyta breittri uppsetningu Boðorðanna, lestu þetta aftur,,, að breyta aftur því sem búið er að breyta og skekkja ,,,.
Hvað get ég gert annað en sett undir mig hausinn og stangað af öllu afli þessi kæruleysis öfl sem ráða ríkjum innan Kristinnar Kirkju, öfl sem ippa varla öxlum þótt vegið sé harkalega að helgustu dómum Kristninnar.
Þú segir eftirfarandi: Annað hvort er guðs orð lifandi eða dautt. Mér finnst þú halda að það sé dautt.
Ert þú að meina það að hreint, ómengað og óbreytt Guðsorð Biblíunnar sé dautt ?
Gísli ! svona í lokin. Kristin Kirkja á að vera Mjúk,,,, ekki teygjanleg,,,,
Birgirsm, 17.12.2008 kl. 20:55
Sæl Rósa
Þú varst mér ofarlega í huga þegar þegar ég var að skrifa pistilinn, þú veist af hverju "Boðorðin" , ég bíð enn eftir svari, og þú örugglega líka. Lætin í mér við skriftirnar eru svo mikil að ég gleymi að birta nauðsynlegar slóðir á það sem ég er að skrifa um, en þú reddar mér fyrir horn núna sem oftar.
Kær Kveðja
Birgirsm, 17.12.2008 kl. 22:21
Sæl Linda
Það er ekkert svo slæmt að það sé ekki eitthvað gott við það, þá er ég að hugsa til svokallaðrar "kreppu" og þess að það er svo oft þannig að fólk þarf að lenda í einhverjum mótbyr í lífinu til þess að það vakni til vitundar í trúarlífinu og fari að leita eftir því sem skiftir máli.
Við erum sammála um það Linda að ekki nokkur maður hafi leyfi til þess að toga teygja og breyta Boðorðunum.
Ég segi það með þér Linda og vona svo sannarlega að þessi prestur sjái þessi skrif og komi með sína hlið á málinu.
Kær Kveðja
Birgirsm, 17.12.2008 kl. 23:02
Sæl Unnur Arna og takk fyrir Bloggvináttuna.
Þú segir: Ég hef reyndar verið að biðja fyrir því að þjóð okkar mætti lifa samkvæmt boðorðunum því að ég tel að það sé viss blessun sem að fylgjir því.
Nákvæmlega. Þá ert þú vonandi að tala um hin Biblíulegu Boðorð eins og þau koma fram í 2.Mós 20:1-17 og 5.Mós 5:6-21 en ekki þau Boðorð sem klippt skorin og snyrt voru af Kaþólsku Kirkjunni á sínum tíma.
Það er mjög auðvelt að þekkja "hin réttu boðorð" frá þeim breyttu! Ef boðorð númer 2 er ekki um bann við skurðgoða-dýrkun, þá er sú uppsetning röng og á þar að leiðandi engan rétt á sér.
Ef boðorð númer 4 fjallar ekki um helgan Hvíldardag Drottins, þá veit ég að páfinn hefur haft puttana í þeirri uppsetningu.
Ef boðorð númer 9. og 10. fjalla um sama hlutinn, þá er eitthvað að.
Kveðja og takk fyrir komuna
Birgirsm, 17.12.2008 kl. 23:54
Ekki spurning beint úr orðinu, ekkert vit í öðru.
Unnur Arna Sigurðardóttir, 18.12.2008 kl. 00:18
Birgir. Sannarlega sammala ter.
Vid megum ekki breyta Bordordum Guds.
Shalom kvedja fra Jerusalem og gledilega hatid.
olijoe
Ólafur Jóhannsson, 19.12.2008 kl. 10:04
Sæll Arnar þú segir: Þjóðkirkjan er ónýtt batterý með öllu
Ég er nokkuð sammála. Ef ég lít á þjóðkirkjuna sem hleðslu batterý þá er batteríið hálf tómt, og alveg við það að tæmast . Það sem verra er, er það að batteriýð (þjóðkirkjan) er skemmt að innanverðunni, tekur illa við hleðslu og er þar af leiðandi orðið máttlítið og kraftlaust.
Skrítnast af öllu finnst mér það að það skulu vera Þjóðkirkju-prestarnir sjálfir sem eru Þjóðkirkjunni verstir, það eru gríðarlega margir í þeirra hópi sem eru að berja á og skemma þær undirstöður Kristninnar ,sem kirkja sem kennir sig við Krist, ætti að standa á.
Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju.
Sæll Mofi
Þetta vers í Hósea á vel við margan þjóðkirkju-prestinn, svo og aðra sem líta á prestsembættið sem eitthvað annað en þjóns starf.
Í Títusarbréfi 1:9 er mjög góð lýsing á Biskupsstarfi (sem á við prestsstarfið líka) en þar stendur eftirfarandi:
Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.
Þarna er ekkert verið að bjóða biskupunum að fara einhverjar millileiðir eða einhvern meðalveg sem kæmi niður á boðskapnum.
Svona í lokin eru sterk orðin hjá Páli til Rómverja sem uppfæra má á þá sem þjóna eiga Guði
Ég áminni yður um, bræður, að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim. Því að slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi, heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna. Róm 16:17-18
Kveðja til þín Mofi
Ólafur
Takk fyrir innlitið og hafðu það sem best í Landinu Helga, ég væri ekkert á móti því að vera þarna yfir hátíðarnar.
Kveðja
Birgirsm, 19.12.2008 kl. 19:42
Christian Glitter by www.christianglitter.com
Guð gefi þér og þínum Gleðileg Jól og farsælt komandi ár.
Vertu Guði falinn
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.12.2008 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.